Að skrifa fyrstu greinina í WordPress

Skrif á fartölvu

Nú erum við búin að ákveða hvað við ætlum að skrifa um, kaupa lén og vefhýsingu, installa WordPress og theme og plugins.

Næst er kominn tími til að gera það sem skiptir mestu máli í þessu öllu saman: að skrifa greinar.

Til þess að skrifa grein í WordPress loggarðu þig inn, ferð til vinstri, velur Posts -> Add New. Þar velurðu fyrirsögn á greinina og skrifar svo textann.

Gerðu textann læsilegan

Það er ýmislegt í boði til að gera textann fallegri og læsilegri.

Hægt er að setja inn myndir, gera stórar og smáar fyrirsagnir, upptalningarlista og margt fleira.

Auðvelt er að vista grein (save draft) til að klára seinna. Einnig er hægt að forskoða (preview) grein, til að sjá hvernig hún lítur út áður en hún er birt. Þegar greinin er tilbúin smellirðu á publish og þá birtist hún samstundis.

Það er í rauninni mjög einfalt að búa til grein í WordPress. Það sem er ekki einfalt er að skrifa grein sem er skemmtileg, læsileg og fræðandi.

Til þess þarftu að hafa sæmilega kunnáttu í ensku og þú þarft að vita eitthvað um efnið sem þú ætlar að skrifa um.

T.d. væri fáránlegt ef ég ætlaði að skrifa um tísku eða fótsnyrtingar, þar sem að ég hef ekki hundsvit á því. Mjög ólíklegt er að greinin yrði fræðandi eða skemmtileg og fólk myndi líklegast ekki vilja lesa hana.

Efnið þarf að vera virkilega gott

Til þess að gera vinsæla vefsíðu og til þess að leitarvélarnar séu tilbúnar til að senda traffík á hana, þarf efnið að vera gott.

Það er lykilatriði númer eitt, tvö og þrjú.

Þú getur búið til flottustu vefsíðu í heimi, með geðveikri graffík og allskonar dóti, en ef textinn á henni er ekki góður þá er öllum sama.

Til eru forljótar vefsíður sem eru mjög vinsælar, en þá er efnið á þeim alltaf mjög gott.

Vinsælt orðtak er „content is king“, en það gefur til kynna að efnið á síðunni sé það sem skiptir mestu máli.

Auk þess er mikilvægt að texti sé fallega settur upp, það séu fyrirsagnir, greinaskil, upptalningarlistar, myndir og línubil alls staðar þar sem það á við.