Að skrifa greinar sem leitarvélar elska

Í seinustu grein talaði ég um að nota verkfæri sem heitir SEMRush til að finna orð og orðasambönd sem mikið er leitað að á Google.

Einnig fjallaði ég um hvernig á að meta samkeppni um leitarorð á einfaldan hátt.

Hér ætla ég að útskýra hvernig á að skrifa greinar um þessi orðasambönd, til að gera leitarvélar líklegri til að senda traffík á þær greinar.

Á ensku kallast þetta „on-page optimization“ eða „content SEO“, sem er mjög mikilvægur hluti í leitarvélabestun (SEO = Search Engine Optimization).

Notum dæmi til að sýna þetta

Gefum okkur að við höfum fundið orðasamband sem mikið er leitað að á Google og við viljum skrifa grein um þetta orðasamband og komast á topp 10 listann hjá Google.

Segjum að við ætlum að skrifa um hundamat, og þá sérstaklega orðasambandið „best dog food“.

Þá er aðalatriðið að greinin fjalli um þetta efni, þ.e.a.s. hvaða hundamatur er bestur.

Setjið ykkur í spor Google. Aðalmarkmiðið þeirra með leitarvélinni er að fólk finni nákvæmlega það sem það leitar að, strax.

Google er gervigreindarvél sem notar mörg hundruð mismunandi atriði til að velja hvaða greinar eru bestar, en lykilatriði er að greinin innihaldi það sem lesandinn er að leita að.

Ef greinin notar orðin „best dog food“, en fjallar samt um eitthvað allt annað, mun þetta ekki virka. Greinin verður að fjalla um leitarorðið.

Svo eru þrír mikilvægir staðir í greininni sem þurfa að innihalda orðasambandið:

  • Fyrirsögn og titill: t.d. „What is the best dog food on the market?“.
  • Lýsingin: t.d. „This article talks about the best dog food on the market, what ingredients it has and where you can buy it.“
  • Slóðin: t.d. mydogfoodsite.com/best-dog-food/

Ef orðasambandið er á þessum þremur stöðum er nokkuð öruggt að Google viti að það sé þetta sem greinin fjallar um.

Svo þarf orðasambandið að koma fram nokkrum sinnum í textanum. Það þarf ekki að passa alveg þar sem að Google skilur að „best food for dogs“ þýðir það sama og „best dog food“.

Lykilatriði er að textinn líti náttúrulega út. Þú þarft að nota orðasambandið (keyword) í textanum, en það þarf að vera náttúrulegt og blandast inn í textann. Ef orðasambandið er notað skringilega eða kemur of oft fram mun Google sjá það.

Skrifaðu greinar fyrir lesendur, ekki leitarvélar. Ef greinin er góð fyrir lesendur og svarar spurningum þeirra vel þá mun Google sjá það og færa greinina upp.

Að lokum

Ég þarf að leggja sérstaka áherslu á það, að það helsta sem Google vill gera er að setja bestu greinina í sæti nr.1, þá næstbestu í sæti nr.2, o.s.frv.

Ef þú skrifar grein sem fjallar um ákveðið orðasamband, en er leiðinleg eða þá að manneskjan fái ekki svarið sem hún leitaði að, þá mun Google vita það og þar af leiðandi ekki birta síðuna þína.

Google notar ákveðin merki til að athuga hvort að fólk virkilega lesi greinina og fái svar, eða þá ýti strax aftur á „back“ takkann til að leita upp á nýtt eða skoða næsta valmöguleika.

Þess vegna er markmið eitt, tvö og þrjú, þegar við skrifum grein, að manneskjan sem leitar fái ekki ástæðu til að fara til baka í Google og velja næstu leitarniðurstöðu.

Svaraðu spurningu lesandans. Skrifaðu frábæra grein. Notaðu leitarorðin í einhverju formi í fyrirsögninni, lýsingunni og textanum. Punktur.