Hvað er noboss.is?

Þessi síða kennir þér að stofna þína eigin vefsíðu eða blogg, í þeim tilgangi að fá fullt af heimsóknum og græða pening.

Sjálfur hef ég stofnað tvær vefsíður sem náðu miklum árangri:

  • KrisKris.com (2011-2012) – Blogg um næringu og heilsu, var komin með um 20 þúsund heimsóknir á dag og milljón á mánuði í tekjur áður en ég hætti með hana.
  • AuthorityNutrition.com (2012-2017) – Vefsíða með greinar um næringu og heilsu, fékk vel yfir 10 milljón heimsóknir á mánuði og oft tugi milljóna á mánuði í tekjur.

Í besta mánuðinum á Authority Nutrition fékk ég 19.8 milljónir heimsókna, þar af 15.3 milljónir frá Google.

AN analytics traffic

Þegar síðan var upp á sitt besta var ég með 6 manns í fullu starfi á Íslandi ásamt yfir 15 manns sem unnu fyrir mig í gegnum netið.

Á endanum seldi ég bandarísku fyrirtæki síðuna fyrir það mikinn pening að ég þarf aldrei að vinna aftur ef ég vil það ekki.

Hins vegar finnst mér þetta svo ótrúlega skemmtilegt að ég get ekki hugsað mér að hætta alveg. Auk þess er ég bara 32 ára, allt of ungur til að setjast í helgan stein.

Nú ætla ég að snúa mér að öðru en næringu, en ég byrjaði nýlega að vinna í síðu um hlutabréf og fjárfestingar sem heitir Stock Analysis.

En ég ákvað líka að byrja á að dunda mér við noboss.is, til að kenna öðrum Íslendingum hvernig á að ná svona góðum árangri á netinu.

Hver ég er

Kristján Már Gunnarsson

Ég heiti Kristján Már Gunnarsson, fæddur og uppalinn í Reykjavík. Á ensku síðunum mínum kalla ég mig Kris Gunnars.

Þegar ég var í læknanámi við Háskóla Íslands byrjaði ég á fullu að skrifa um næringu á netinu.

Fljótt urðu greinarnar og síðurnar mínar svo vinsælar að ég gat hætt aukavinnuni sem ég var í með skóla og borgað upp námslánin mín.

Á endanum hætti ég í námi eftir að fá BS gráðu þar sem ég einfaldlega hafði ekki tíma til að klára námið og var kominn með mun hærri tekjur en best launuðu læknar á landinu.

Vilt þú ná sama árangri?

Ef þig langar að reyna að ná svipuðum árangri og ég gerði, þá finnurðu mörg góð ráð á þessari síðu.

Ég mæli sterklega með að byrja á að búa til þína eigin vefsíðu. Ég hef búið til einfaldar leiðbeiningar til að gera það hér:

Vefsíðugerð fyrir byrjendur: 3 einföld skref til að búa til vefsíðu

Það er ódýrt að búa til vefsíðu og tekur stuttan tíma.

Hins vegar er það töluvert flóknara og tekur töluvert lengri tíma að gera síðuna flotta og gagnlega, ásamt því að skrifa greinar sem fá traffík frá Google. En þetta er allt hægt með þrautseigju og þolinmæði.

Fyrsta markmiðið þitt á að vera að fá 100 heimsóknir á dag.

Ef þú nærð því er eftirleikurinn furðulega auðveldur, t.d. er miklu auðveldara að komast úr 100 í 1000 heimsóknir á dag en það er að fá fyrstu 100 heimsóknirnar á dag.