Hvað er leitarvélabestun? (SEO = Search Engine Optimization)

Í dag ætla ég að kynna fyrir þér hugtak sem kallast leitarvélabestun á góðri íslensku. Á ensku kallast það „Search Engine Optimization“ og er skammstafað SEO.

Þetta er í rauninni risastór bransi á netinu sem fjallar um það að koma vefsíðum á forsíðuna hjá Google, þ.e. að þegar fólk leitar að einhverju, þá komi síðan þín upp.

Til eru mjög margir einstaklingar og mörg stór fyrirtæki sem sérhæfa sig í þessu.

Leitarvélabestun er eitthvað sem ég er mjög góður í og þetta mun ég skrifa um í næstu greinum, en 77% af traffíkinni sem ég fékk á Authority Nutrition stafaði af því að ég var nr.1 í Google fyrir nokkur mjög vinsæl leitarorð.

Sem dæmi er grein sem ég skrifaði um grænt te búin að ranka nr. 1 fyrir þetta mjög vinsæla leitarorð í mörg ár og fá margar milljónir heimsókna. Greinin rankar hærra en Wikipedia. Sjá hér:

Það eru til fleiri leitarvélar, t.d. Yahoo og Bing, en traffíkin frá þeim er mjög lítil. Næst stærsta leitarvél heims er YouTube.

Hvernig Google velur topp 10 niðurstöðurnar

Það sem Google gerir er að skanna allan vefinn reglulega. Google skráir gögnin í gagnabanka sem er kallaður Google Index, sem hægt er að ímynda sér eins og risastóra símaskrá.

Þegar notandi skrifar inn leitarorð, t.d. „Dog Food“, þá skannar Google þennan gagnabanka til að finna greinar sem fjalla um það efni. Google skoðar hvort að orðið sé í titlinum, hvort að það sé í lýsingunni eða slóðinni, og hvað það er nefnt oft í textanum.

En annað aðalatriði sem Google skoðar, er hvort að síðan sé með marga linka frá öðrum síðum sem fjalla um sama efni.

T.d. ef síða A fjallar um „Dog Food“ og er með linka frá síðum B, C, og D sem fjalla líka um „Dog Food“, þá heldur Google að síða A sé mikilvæg og er líklegri til að láta síðuna koma ofarlega í leitarniðurstöðum.

Google notar flóknar reikniformúlur

Í rauninni veit enginn nákvæmlega hvernig Google virkar (nema verkfræðingarnir sem starfa þar), en þeir nota flóknar reikniformúlur og gervigreind til að ákveða hvaða vefsíður skuli sýna í leitarniðurstöðunum.

Google hafa gefið upp opinberlega að þeir nota um 200 mismunandi atriði til að ákveða hvaða vefsíður skila bestu niðurstöðum fyrir hvert leitarorð.

Grunnatriði í leitarvélabestun

Það sem Google vill gera, er að þegar manneskja leitar að einhverju ákveðnu orðasambandi, t.d. „how much protein per day“, að þá skili þeir niðurstöðum sem gefur notendanum svarið á sem skilvirkastan og fljótlegastan hátt.

Til þess að Google geti gert þetta, þurfa þeir að vita að síðan sé vinsæl og að hún fjalli um þetta efni. En lykilatriði er að lesandinn finni akkurat það sem hann er að leita að.