Að velja umfjöllunarefni og nafn fyrir síðuna þína

Ef þig langar að búa til vefsíðu sem fær fullt af heimsóknum og miklar tekjur, þá er mjög mikilvægt að velja rétta umfjöllunarefnið.

Einnig er lykilatriði hvað nafnið á síðunni þinni er, því það er þitt helsta vörumerki. Nafnið þarf líka að vera laust svo að þú getir keypt lén sem passar við nafnið.

T.d. var umfjöllunarefnið á minni síðu næring og heilsa. Nafnið var Authority Nutrition og lénið authoritynutrition.com (athugið að síðan er ekki til lengur, þar sem ég seldi hana).

Að velja umfjöllunarefni (e. niche)

Umfjöllunarefnið á síðunni þinni er mjög mikilvægt, en ef þú vilt fá mikla traffík þá þarftu að skrifa um eitthvað sem margir hafa áhuga á.

Dæmi um vinsæl umfjöllunarefni:

 • Næring og heilsa
 • Föt og tíska
 • Fegurð, hár o.fl.
 • Barnauppeldi
 • Markaðssetning á netinu
 • Bílar
 • Vefhönnun
 • Fréttir
 • Slúður

Ég mæli með að skrifa um eitthvað sem þú hefur annað hvort mikla þekkingu á, mikinn áhuga á, eða bæði.

Þú þarft ekki að vera sérfræðingur í einhverju til að skrifa um það. Þú getur lært ótrúlega mikið um efnið bara á því að rannsaka það og skrifa greinar um það.

Að velja nafn og lén (e. domain name)

Nafnið á síðunni þinni er mjög mikilvægt, sérstaklega ef þú ætlar að búa til vinsæla síðu sem fær traffík frá leitarvélum.

Lénið (e. domain name) á síðunni þinni mun líka vera byggt á nafninu, en mikilvægt er að það sé auðvelt að muna og skrifa lénið.

Í rauninni eru nafnið og lénið þín helstu vörumerki.

Svo er best að það sé augljóslega hægt að lesa út úr nafninu um hvað síðan er, eins og „authoritynutrition.com“ er gott nafn fyrir næringarsíðu og „fastcars.com“ er gott nafn fyrir síðu sem fjallar um hraðvirka bíla.

Góð leið til að velja nafn er að skrifa niður 20-100 hugmyndir að nöfnum. Svo geturðu notað útilokunaraðferðina til að finna það besta.

Athuga hvort að lén sé laust

Það eru tvær leitarvélar sem hjálpa þér að finna hvort að nafn / lén sé laust:

 1. NameCheap: Ef þú ætlar að skrá .com, .net eða önnur erlend lén geturðu sett það inn í leitarvélina hjá þeim til að sjá hvort það sé laust.
 2. Isnic: Ef þú ætlar að skrá .is lén, þá geturðu sett það inn í boxið til að sjá hvort það sé laust.

Svo er næsta skref að fara á vef Siteground til að kaupa lénið og vefhýsinguna.